138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt alveg hárrétt hjá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að það er ákall um samstöðu í svo mörgum málum. Það má vel vera að hægt sé að gagnrýna ýmislegt og hægt er að gagnrýna verklag og vinnubrögð undanfarinna ára, margt var vel gert, en það má líka svo sannarlega gagnrýna vinnubrögðin líka.

Þess vegna hélt maður þegar það var sérstaklega undirstrikað að með nýrri ríkisstjórn ætti að breyta vinnubrögðum og breyta ætti vinnubrögðum í þá veru að opna hlutina meira, að teygja sig í átt til samstöðu og samvinnu, reyna að tengja þjóðina saman miklu betur, en það hefur ekki gerst. Ef það gerist ekki á þingi gerist það ekki heldur í samfélaginu. Mér finnst ábyrgð þeirra sem halda um stjórnartaumana mikil í þá veru að halda utan um samfélagið, halda utan um fólkið. Það er ekki gert hér og ekki heldur úti í samfélaginu.

Það sem ég velti fyrir mér líka er tíminn, það hefur komið í ljós hvað eftir annað. Við sátum undir þeim hræðsluáróðri í sumar að það yrði að klára þetta. Fyrst mátti ekki greina frá samningnum af því að þetta væri allt svo svakalega mikilvægt og helst að keyra þetta strax í gegn. Síðan fengum við að sjá samninginn, unnum úr honum og stóðum okkur að mínu mati vel. En þá kom í ljós að við höfðum nægan tíma.

Hvaða hættur greinir þingmaðurinn við það að málið verði unnið betur? Greinir þingmaðurinn einhverjar hættur í þá veru fyrir land og þjóð ef við stöldrum aðeins við, förum yfir ábendingarnar sem hafa verið settar mjög skilmerkilega fram er tengjast stjórnarskránni, er tengjast vöxtunum, er tengjast efnahagslegu fyrirvörunum? Hvaða hættur sér hv. þingmaður við það að (Forseti hringir.) við förum betur yfir málin?