138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni heiðarlegt og einlægt svar eins og ég átti nú von á. Ég tek undir orð þingmannsins um það að eftir 30. nóvember gerist ekki neitt annað en að við höldum áfram að lifa og þurfum að berjast við þá erfiðleika sem steðja að þjóðinni. Þeir munu heldur ekki hverfa, eins og sagt hafi verið „hókus pókus“, ef við samþykkjum Icesave-samninginn fyrir þann dag, ég get alla vega ekki séð það.

Ég er eins og hv. þingmaður nýr hér á þinginu og hafa mér oft og tíðum þótt vinnubrögðin sérkennileg ef ekki býsna léleg ef borið er saman við það sem maður hefur starfað við áður á ýmsum sviðum. Ég reyni að finna einhverja samlíkingu við þetta mál og velti því fyrir mér — þess vegna hafði ég orð á heiðarleika og einlægni hv. þingmanns — hvort einhver þurfi ekki að stíga fram í þessu máli, eins og barnið í sögunni Nýju fötum keisarans , og segja einfaldlega að keisarinn sé ekki í neinum fötum.

Dregnir hafa verið fram alls kyns sérfræðingar og það virðist ekki skipta neinu máli. Hæstv. ríkisstjórn virðist vera búin að taka þá ákvörðun að málið sé lykill að einhverri leið sem enginn virðist sjá, málið er svo hulið að ekkert af þessu virðist skipta máli. Það breytir engu þó að virtir erlendir sérfræðingar, stjórnarandstaðan eða jafnvel meiri hluti þjóðarinnar telji að þetta sé röng leið. Enginn virðist ná eyrum valdhafanna. Ég hef þá velt því fyrir mér hvort hin saklausa sál barnsins þurfi ekki að koma fram til að segja sannleikann, að það séu engin föt utan á keisaranum, og að Icesave sé engin lausn fyrir íslenska þjóð.