138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er orðið mjög skáldlegt hjá okkur og það er vel. Ég þakka fyrir þessa spurningu. Ég velti fyrir mér hver gæti verið þetta barn sem bendir á að hæstv. ríkisstjórn er nánast eins og allsber í þessu máli. Það er ekkert sem gefur okkur tilefni til að flýta okkur í gegnum þetta mál, það er ekkert sem segir t.d. að við getum ekki bara farið dómstólaleiðina. Ég veit að Sjálfstæðisflokkurinn sagði einhvern tímann að það væri ekki nógu gott en síðan hafa komið fram ýmsar nýjar upplýsingar. Mér finnst allt í lagi ef hv. þingmenn skipta um skoðun ef fram koma aðrar og nýjar upplýsingar sem gefa tilefni til þess. Mér finnst ekkert að því.

Mér finnst það ekki nógu góð afsökun að samþykkja þessa hluti eins og þeir eru í dag bara út af því að einhver sagði einhvern tímann eitthvað og gerði einhvern tímann eitthvað vitlaust. Við verðum að skoða hlutina út frá því hvernig þeir eru í dag. Og í dag er keisarinn nakinn, það er alveg á hreinu.

Ég skora á hæstv. ríkisstjórn, ég skora á ágæta hæstv. ráðherra og hv. þingmenn, sem hér eru frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að gera eins og minni hlutinn leggur til. Notum lögin sem við höfum, við erum með stórfín lög frá því í september. Hlustum á forseta lýðveldisins, hann sagði að hann hefði einungis skrifað undir þessi lög út af fyrirvörunum. Ég skora jafnframt á fólk sem er hrætt við þetta að skrifa undir áskorun til forseta (Forseti hringir.) lýðveldisins, um að þjóðin fái að kjósa um þetta mál. Það er varla flóknara en Kárahnjúkamálið.