138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi seinni spurningu hv. þm. Péturs H. Blöndals er það auðvitað eitt af þeim atriðum sem ég tel nauðsynlegt að kalla saman nefndir þingsins til að fjalla um. Ég hef ekki séð í nefndarálitum, hvorki meiri hlutans né annarra, fullnægjandi svör við því hvaða áhrif það hefði við skuldaskil Landsbankans og hugsanlega vaxandi gengisáhættu af því skuldabréfi sem þar ku fara á milli sem gæti orðið til þess að gengi íslensku krónunnar mundi kannski um enn lengri tíma vera lágt eða jafnvel lækka.

Varðandi spurningar hans um reikniformúlu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ég get tekið undir það og það hefur undrað mig talsvert að menn geti nánast sett upp hvaða formúlu sem er. Og varðandi spurningu hv. þingmanns til fulltrúa sjóðsins, hver mörkin væru um greiðsluþol eða gjaldþol, þá verð ég hreinlega að segja alveg eins og er að ég mundi satt best að segja ekki trúa því svari sem kæmi frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þegar hann getur á einum tímapunkti sagt að 160% séu eiginlega ekki hæf en síðan er allt í lagi að fara upp í 250 eða 300% og svo reynist þetta vera á fjórða hundrað þúsund og þá er það samt líka í lagi. Þá veit ég ekki hvort hægt er að standa hér eða hvar sem er og segja hreinlega: Ja, ég trúi þessu svari alveg fullkomlega af því að á bak við það er svo ábyggilegt traust, sem það klárlega ekki er. Ég held að við eigum enn eftir að sjá trúverðug og traust svör um gjaldþol og greiðsluþol og það má þá nefna að hugmyndir Seðlabankans um hagvöxt á næstu árum og afgang á mörkuðum eru ævintýralega háar miðað við það þegar við horfum í baksýnisspegilinn og sjáum hvað við höfum skilað af gjaldeyri á síðustu 30–40 árum. (Forseti hringir.)

Varðandi fyrstu spurninguna verð ég að fá að nota seinna andsvar mitt til að svara þingmanninum.