138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:24]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Fundi formanna þingflokka með forseta þingsins er lokið. Í sjálfu sér fékkst engin sérstök niðurstaða um það hvenær þingfundi lyki í dag en ákveðið var að hittast aftur um kvöldmatarleytið. Var fólgið í því fyrirheit af hálfu forseta um að gert yrði kvöldmatarhlé og er ástæða til að þakka það.

Ég vil nota tækifærið til að ítreka, úr því að ég sé að hér er hæstv. fjármálaráðherra, tilboð okkar stjórnarandstæðinga um að hægt sé að taka þau mál sem snúa að fjárlögum, skattamál og önnur slík, til afgreiðslu við 1. umr., koma þeim til nefndar, án þess að henda Icesave-málinu út heldur setja það á frest meðan við erum að ganga frá þessu og halda svo áfram. Þetta gerum við vegna þess að við viljum forðast handvömm og tryggja að ekki verði gerð mistök við afgreiðslu fjárlaga. Við viljum tryggja að menn afgreiði þau ekki í einum spreng rétt fyrir jól eða áramót heldur vinni þetta skynsamlega og eðlilega þannig að þingið geti raunverulega horft framan í sjálft sig þegar það afgreiðir jafnmikilvægt frumvarp og fjárlögin.