138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:28]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það eru vonbrigði að ekki hafi náðst niðurstaða á fundi þingflokksformanna með hæstv. forseta þingsins um það hvernig fyrirkomulagi þinghalds verði háttað. Ég ítreka, eins og aðrir hér, tilboð okkar í stjórnarandstöðunni um að koma þessum málum á dagskrá, málum sem við vitum að þarf að klára fyrir ákveðinn tíma.

Ég hlýt að spyrja hæstv. forseta þar sem ekki liggur fyrir neitt samkomulag um þetta og allt í góðu með það: Hefur hæstv. forseti í hyggju að halda þinginu áfram langt fram á kvöld eða fram á nótt? Ég vek athygli á því að það er laugardagur, klukkan er núna 16.30. Það fer að halla í kvöldið og það væri kannski hægt að spyrja hæstv. forseta að því hvort mörg fordæmi séu fyrir því að þing sé á sunnudögum og hvort það stefni í þinghald á sunnudegi. Það væri þá sögulegt að fyrsti sunnudagur í aðventu skuli valinn til að rjúfa þá hefð. Ég vænti svara frá hæstv. forseta.