138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:30]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem enn upp undir þessum lið, fundarstjórn forseta, að velta því fyrir mér hvort virkilega sé ekki hægt að leggja fram einhverja hugmynd um hvernig við þingmenn eigum að haga vinnu okkar á laugardögum, hvað þá á öðrum dögum, og hvort virkilega liggi ekki fyrir hugmyndir um hvort þessum fundi skuli haldið fram til klukkan sex, átta eða tólf eða jafnvel langt fram á nótt. Ég vil minna á að við höfum fundað sleitulaust síðan klukkan hálftíu í morgun og hér var ekki gefið neitt matarhlé. Er fyrirhugað að kvöldmatur verði á einhverjum ákveðnum tíma eða á hann kannski að verða um hálfníu, níu? Það er nauðsynlegt að fá fram skýr skilaboð frá hæstv. forseta þess efnis hvernig við eigum að haga okkur í þinginu ef við þurfum að bregða okkur frá til að grípa okkur bita, þó ekki væri annað.