138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég nefndi rétt áðan að ég teldi rétt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra væri viðstaddur þessa umræðu. Ljóst er að margt sem undir þetta mál heyrir er á málefnasviði hæstv. ráðherra en hann hefur ekki tekið til máls í umfjöllun um þetta frumvarp nema í þrjár mínútur. Hann tók þátt í andsvörum, sennilega á fimmtudagskvöldið, og kom einu sinni upp og talaði um fundarstjórn forseta en hefur að öðru leyti ekki tjáð sig um þetta mál. Það eru fjöldamargar spurningar frá mér og fleiri þingmönnum sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra gæti svarað og væri eðlilegt að hann svaraði. Ég þykist vita að næsti hv. þingmaður sem tekur til máls, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, hafi fjölmargar athugasemdir sem einmitt hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ætti að heyra og bregðast við.