138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:06]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því mati Daniels Gros að jafnræðisreglu hafi ekki verið beitt á tryggingarsjóðina. Rök hafa verið færð gegn þessu. Menn spyrja: Hvaða jafnræðisreglu er verið að tala um? Því er einnig haldið fram að ekki sé hægt að nota jafnræðisreglu í þessu máli, á samkeppnisgrunni eða í samkeppnismálum. Ég er alls kostar ósammála því.

Ég vann ásamt öðrum skýrslu fyrir Evrópusambandið árið 2000 um samanburð á evrópsku tryggingarsjóðunum sem m.a. mynduðu grunn að ummælum Triché sem vitnað hefur verið í meðan hann var seðlabankastjóri Frakklands. Ef þú ert með tryggingarsjóð í einu landi sem nýtur ríkisábyrgðar og tryggingarsjóð í öðru landi sem ekki nýtur ríkisábyrgðar býr tryggingarsjóðurinn, eða þau fyrirtæki sem eru tryggð af tryggingarsjóðnum með ríkisábyrgðinni, tvímælalaust við betri samkeppnisstöðu en hinn sjóðurinn. Afleiðing af því er á nákvæmlega sama hátt að tryggingarsjóður sem býr við betri lánakjör ef hlutirnir fara á versta veg en hinn — það endurspeglast í samkeppnismómenti á milli þeirra stofnana sem eru tryggðar. Þetta er röksemdafærslan og ég er sammála henni.

Hvað varðar gengisfestinguna sem hv. þm. Pétri H. Blöndal hefur verið hugleikin þá tel ég að það hafi verið rangt sem var gert, að mistök hafi verið gerð þegar útgreiðslur úr þrotabúi voru festar við íslensku krónuna vegna þess að skuldbindingarnar eru í erlendum gjaldmiðlum, enda hafa skilanefndir bankanna sjálfar bent á þetta.