138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég held að einmitt sú ræða sem hér var flutt af hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni og andsvörin sem hann fékk sýni glögglega hversu mikilvægt það er að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir umræðuna og geti brugðist við. Þau mál sem hv. þingmaður vék að sem varða þróun í efnahagsmálum heimsins og áhrif þess á þetta mál, bein áhrif á þetta mál, (PHB: Síðustu klukkutíma.) jafnvel síðustu klukkutíma, kalla auðvitað á andsvör eða viðbrögð frá forustumönnum ríkisstjórnarinnar, þeim sem hafa ábyrgð á efnahagsmálunum. Ég nefni sérstaklega hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sem ég spyr enn hvar sé, og raunar einnig hæstv. forsætisráðherra, leiðtoga ríkisstjórnarinnar. Þetta eru gríðarlega stór mál, hæstv. forseti, og það er mjög sérkennilegt að þingmenn ræði þetta án þess (Forseti hringir.) að þeir sem bera ábyrgð á þessum málum fyrir hönd þjóðarinnar séu viðstaddir.