138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:18]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Birgis Ármannssonar um að það væri mjög æskilegt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra væri viðstaddur umræðuna. Mig rekur ekki minni til að hann hafi haldið ræðu í þessari umræðu frá því að málið var aftur lagt upp í þinginu. Hann fór í andsvar í vikunni, stuttlegt andsvar, en ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt í ljósi þeirra upplýsinga sem hér hafa verið ræddar og þeirra miklu hagsmuna sem undir hvíla að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra komi til þingsins. Ég fer fram á það við hæstv. forseta að hann kanni hvort hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafi tækifæri til að koma í dag og taka jafnvel þátt í umræðunni eða a.m.k. hlusta á þau sjónarmið sem hér eru uppi. Ég tók eftir því að hæstv. forsætisráðherra var hér fyrr í dag, ég hef ekki séð hæstv. forsætisráðherra alveg nýlega en ég segi að sama skapi að þegar um mál af þessum toga er að ræða er æskilegt að a.m.k. hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sé viðstaddur.