138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um afskipti Evrópusambandsins af þessum samningum finnst mér þau frekar dapurleg. Mér finnst ekki að Evrópusambandið eigi að hvetja til þess að við klárum þessa Icesave-deilu. Í mínum huga á Evrópusambandið að skoða þá tilskipun sem gerir það að verkum að við erum í þessari stöðu, kanna sína eigin aðkomu og vinna úr málinu. Ég held að flestir telji að tilskipunin hafi verið meingölluð og Evrópusambandið ætti að koma þá frekar með lausn á henni fyrir íslenska ríkið og fyrir íslenska þjóð. Vegna þess hve meingölluð þessi tilskipun var þurfum við ekki að veita þá ríkisábyrgð sem hér er krafist og það væri nær að Evrópusambandið beitti sér í að skoða þá þætti. Evrópusambandið óttast jafnmikið og Bretar og Hollendingar að verði þetta ekki gert eins og til er ætlast af okkur verði áhlaup á bankana og til þess mega þeir ekki hugsa. Það færi betur á því að þeir beittu sér í að skoða eigin tilskipanir og hvernig þeir geta lagfært þær.

Í mínum huga eru Bretar og Hollendingar ekki færir um að hafna íslenskum lögum. Þeim koma þau bara akkúrat ekkert við og við eigum ekki sem þjóð og sem þingmenn að láta Breta og Hollendinga segja Alþingi Íslendinga að þau lög sem Alþingi Íslendinga hefur samþykkt séu ekki nógu góð fyrir Breta og Hollendinga. Fyrirgefið, mér er eiginlega slétt sama hvað Bretum og Hollendingum (Forseti hringir.) finnst um það.