138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi þetta með að hlutirnir séu ásættanlegir. Það var skoðað nákvæmlega, bæði þegar við vorum að ljúka málinu í sumar og aftur núna, hvaða líkur væru á því að vextirnir færu yfir þau mörk sem sett voru varðandi efnahagslegu fyrirvarana. Þær líkur eru hverfandi að mati þeirra sem um það mál hafa fjallað og það held ég að sé mikilvægt að menn átti sig á.

Það er auðvitað erfitt að semja með lagasetningu og eitt af því sem við gerðum í sumar var að við enduðum málið með því að spyrja Breta og Hollendinga um okkar lög. Og við fengum svar, við fengum svarið með því að þeir sættust ekki á þetta en buðu að þeir mundu setja fyrirvarana inn í sjálfa samningana og ganga þannig frá þeim með öðrum hætti. Síðan leituðu þeir eftir því og núna tekur þingið afstöðu til málsins að nýju. Það er að ræða og skoða málið og meta hvort það er ásættanlegt eður ei. Þannig var gangurinn í málinu og ég held að það sé mikilvægt líka að við séum sammála (Forseti hringir.) um að við þurfum að ljúka þessu máli. Ég hefði viljað heyra það frá öðrum þingmönnum að við erum ekkert að hlaupa (Forseti hringir.) frá þessu máli. Við komumst ekkert frá því, því miður. Við verðum að semja um það (Forseti hringir.) og ég er tilbúinn að ræða hvort við getum gert það ásættanlegra eins og þingmaðurinn sagði eða gera þetta (Forseti hringir.) bærilegra, en ekki láta í veðri vaka (Forseti hringir.) að þetta mál geti horfið.