138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vildi fyrst lýsa ánægju minni yfir því að sjá hv. þm. Guðbjart Hannesson í ræðustól. Ég hef séð að hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefur fylgst vel með þessum umræðum og hef ekki athugasemdir við það, en mér hefur hins vegar þótt skorta nokkuð á að hann tæki þátt í umræðum og ég var hreinlega farinn að halda að hann hefði misst málið. Sem betur fer hefur það ekki gerst og við væntum þá frekari svara af hálfu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar við þeim fjöldamörgu athugasemdum, ábendingum og jafnvel beinum spurningum sem fram hafa komið af hálfu þingmanna stjórnarandstöðunnar síðustu klukkutímana og raunar í gær líka vegna þess að ekki virðist létt að draga slík svör upp úr hæstv. ráðherrum þessarar ríkisstjórnar.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefur fylgst samviskusamlega með umræðunni og getur þá vonandi greint í ræðum frá sjónarmiðum sínum og eftir atvikum gagnrökum (Forseti hringir.) vegna þeirra sjónarmiða sem við höfum sett fram.