138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það þjónar tilgangi að hafa umræður í þinginu. Það þjónar þeim tilgangi að 63 þingmenn geta rökrætt mál, fært fram sjónarmið, komið með nýjar upplýsingar og tekist á um hluti sem þá greinir á um. Megintilgangur þessarar umræðu er þannig að ná fram ákveðinni rökræðu um þau mál sem eru til umræðu með það að markmiði að ná sem skynsamlegastri og bestri niðurstöðu. Ég er þeirrar skoðunar að í þessari 2. umr. um Icesave-frumvarp hæstv. fjármálaráðherra hafi mjög margt komið fram og ég hef á tilfinningunni að það eigi enn þá meira eftir að koma fram af hálfu okkar stjórnarandstæðinga. Það sem hins vegar hefur skort verulega á er að hv. stjórnarliðar taki þátt í umræðunni og komi (Forseti hringir.) með rök eða gagnrök gegn því sem við höfum fram að færa.