138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég held að það hafi komið í ljós að enginn ágreiningur er um að hér geti verið starfað á sama tíma og þingfundir eru og um það hefur yfirleitt verið samkomulag í þinginu að skipta sér ekki af því þó að einhverjir hópar séu að funda. (Gripið fram í.) Það hefur almennt verið en ef t.d. heilu flokkarnir óska eftir að ekki sé fundað í ákveðnum nefndum eða hópum — í þessu tilfelli var þetta starfshópur sem með líkum hætti og miðstjórnarfundur Sjálfstæðisflokksins boðaði til fundar með löngum fyrirvara og fólk kemur víða að af landinu, (Gripið fram í.) þá er ástæða til að segja að við eigum auðvitað að halda þinginu gangandi því við höfum fullt tækifæri til að fylgjast með því sem hér fer fram og taka þeim skilaboðum sem koma fram.

Ég tek líka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað um að auðvitað er mikilvægt að menn fái tækifæri til að koma fram sínum sjónarmiðum og við eigum að taka allan þann tíma sem þarf, hvort sem er í kvöld eða þess vegna á morgun eða mánudaginn, til að ljúka þeirri umræðu. Ég hvet þó fólk til að forðast endurtekningar þannig að við fáum sem mest af upplýsingum um hvaða gagnrýni (Forseti hringir.) fólk hefur um það mál sem er til umræðu og getum tekið það fyrir að nýju í nefnd sem fyrst. (Gripið fram í: Hvað þarf að segja þetta við ykkur oft? Þið hlustið ekki.)