138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir athyglisverða ræðu. Mér fundust mjög athyglisverðar þær niðurstöður sem hún komst að, eða öllu heldur sem hún benti á, og skipta auðvitað töluverðu máli fyrir þessa umræðu. Annars vegar varðandi tengsl Icesave og ESB sem fólk hefur haft mismunandi skoðanir á. Í mínum huga er alveg skýrt að þau tengsl eru fyrir hendi þótt reynt sé að dylja þau og draga úr þeim í umræðunni, einkum af hálfu hæstv. utanríkisráðherra sem hefur fjallað um þetta mál.

Hins vegar er líka mikilvægt, eins og kom fram í máli hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur, að þetta Icesave-mál og afdrif þess snúast ekki um afdrif þessarar ríkisstjórnar. Ég held að það sé alveg klárt að hvernig sem þetta mál fer mun það ekki verða tilefni til þess að stjórnarandstöðuflokkarnir á þingi geri nokkra atlögu að þessari ríkisstjórn. Eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir benti á hefur enginn talað um að Icesave-málið eða úrslit þess gætu fellt ríkisstjórnina nema hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa verið alveg skýrir með að þeir vilja fjalla um þetta mál, þeir hafa mjög sterkar skoðanir á því og vilja gjarnan leita bandalags við einstaka þingmenn innan stjórnarflokkanna, ef það er mögulegt, um að stoppa þetta mál eða breyta því alla vega í grundvallaratriðum en það kemur tilvist eða framtíð þessarar ríkisstjórnar ekkert við, ekki nokkurn skapaðan hlut.

Þetta voru atriði sem ég vildi árétta í tilefni af ræðu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur. Ég vildi einnig spyrja hvort hún (Forseti hringir.) teldi mögulegt að við í stjórnarandstöðunni fengjum liðsstyrk frá (Forseti hringir.) t .d. hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli.