138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:36]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég sakna líka samstöðunnar sem myndaðist um þetta mál í sumar. Hún var kannski einstök þar sem stjórnarandstaðan naut liðsstyrks nokkurra þingmanna Vinstri grænna og almennur vilji var að þoka þessu máli í rétta átt.

Nú eftir að málið var tekið upp aftur að nýju hefur því hins vegar margoft verið lýst yfir að engu megi breyta og það sé ekkert svigrúm til breytinga. Það finnst mér eiginlega ekki ganga upp vegna þess að þessir skilmálar eru óásættanlegir fyrir Ísland. Annaðhvort verðum við að fá að breyta þessu, hnika þessu til eða hreinlega fella þetta, hvort sem við fellum það á tíma ef þessi dómsdagur stendur eða það verður hreinlega fellt í þinginu. Ég treysti mér ekki til að spá um hvernig þessir umræddu hv. þingmenn Vinstri grænna munu kjósa þegar greidd verða atkvæði eftir nokkra daga.

Við skulum þó halda því til haga, og ég held að það sé ágætt að við rifjum það upp, að við áttum aldrei að fá að sjá Icesave-samningana. Þeim var lekið, sennilega frá Hollandi, bæði í fjölmiðla og Indefence-hópinn og það var ástæða þess að við fengum að sjá þessa samninga og kynnast þessu máli svona vel. Kannski of vel því við erum öll orðin frekar leið á því. Við skulum heldur ekki gleyma því að þegar skrifað var undir samninginn, 5. júní held ég að það hafi verið, var það kynnt sem glæsileg niðurstaða sem síðan kom í ljós að var algerlega óásættanleg fyrir íslenska þjóð.