138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér hefur oft þótt hv. þingmaður vera einlægur, sem er dálítið óvenjulegt á Alþingi, og ég kann ekki illa við það, frú forseti, alls ekki. Ég vil þakka henni fyrir ágæta ræðu og það að hún vitnaði til vina sinna á Facebook er í samræmi við það hvernig hún talar yfirleitt.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig hún telji að þingmönnum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar líði. Nú er enginn sáttur við þetta fyrirbæri Icesave og þennan Icesave-samning. Allir gera sér í vaxandi mæli grein fyrir hvað þetta er alvarlegt fyrir íslenska þjóð, eða getur orðið alvarlegt. Hvernig heldur hv. þingmaður að t.d. hv. þm. Ögmundi Jónassyni, Ásmundi Einari Daðasyni eða Lilju Mósesdóttur, sem reyndar ætlar væntanlega að vera sú eina sem er á móti þessu, líði? Svo ég tali ekki um hv. þingmenn sem eru í Samfylkingunni og gera sér líka grein fyrir alvöru málsins þótt sumir geri sér kannski ekki almennilega grein fyrir því vegna þess að milljarður er í hugum manna afskaplega óljóst hugtak. Milljarður og milljón eru eiginlega það sama, það sama og stóll eða eitthvað allt annað. Menn gera sér ekki grein fyrir hvað þetta eru miklar upphæðir og hvað þetta allt saman er stórt. Bara ársvextirnir eru meira en kostar að reisa nýtt háskólasjúkrahús. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hún telji að þessu fólki líði, sérstaklega þegar það gerist nú að 11.000 manns hafa skrifað undir hjá Indefence eftir aðeins, að ég held, tvo sólarhringa.