138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:40]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Þegar stórt er spurt, frú forseti. Ég held, og ég reyndar veit að nokkrum vinum mínum úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði líður mjög illa. Svo ég vitni aftur í umræddan vef, Facebook, hef ég frá einum þingmanni athugasemd þar sem hún segir: „Mér finnst ég lokuð inni í vítahring þar sem ég styð ekki Icesave en ég styð ríkisstjórnina. Forustufólk stjórnarflokkanna vill hins vegar ekki starfa saman nema Alþingi samþykki Icesave-ríkisábyrgðina.“ Þetta er birt á fjölmiðli sem heitir Facebook.

Ég held að fólki innan Samfylkingarinnar líði ekki betur. Það hjálpar mér persónulega að sættast við þetta. Ég reyni þó alla vega að gera allt sem ég get til að þoka þessu máli í skárri átt. Það að sitja hjá, hvort sem er heima hjá sér að horfa á enska boltann eða sem þingmaður, þjóðkjörinn fulltrúi Samfylkingarinnar, en reyna ekki að gera neitt til að gera málið skárra og láta þetta yfir sig ganga — ég held að því fólki sem áttar sig á þessum tölum, og það eru margir því við höfum reynt að setja þessar tölur í samhengi þó fáar séu, hljóti líka að líða mjög illa.