138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður brást ekki trausti mínu í því að vera einlæg og heiðarleg í þessu svari. Nú kemur hún úr Borgarahreyfingunni, sem nú heitir reyndar Hreyfingin, og stóð í vor úti á Austurvelli og mótmælti þeirri stöðu sem þá var. Síðan var haldinn afskaplega merkilegur þjóðfundur sem ég gat ekki farið á vegna þess að ég var að vinna að nefndaráliti fyrir Icesave, skrifa greinar o.fl. Ég taldi mig ekki hafa tíma til þess því miður en þar lögðu menn megináherslu á heiðarleika. Nú er það þannig með þetta mál að það hefur þurft að toga út úr stjórnvöldum með töngum, frú forseti, allar upplýsingar, t.d. samninginn sjálfan. Það átti virkilega að samþykkja ríkisábyrgð upp á hugsanlega þúsund milljarða án þess að sjá hvað menn væru að samþykkja. Stjórnarliðar samþykktu það í sínum þingflokkum án þess að hafa séð þessi plögg og meira að segja er talið að ráðherrar hafi ekki einu sinni lesið þetta. Telur hv. þingmaður að þetta sé heiðarlegt?

Síðan skrifast hæstv. forsætisráðherra landsins á við forsætisráðherra Breta og það er sömuleiðis dregið út með töngum af fréttastofu úti í bæ. Telur hv. þingmaður að þetta sé í samræmi við það sem mótmælin á Austurvelli gengu út á, í samræmi við það sem var rætt á þjóðfundinum, um heiðarleika og gagnsæi? Telur hv. þingmaður að þetta sé merki um það? Einnig að hæstv. forsætisráðherra skuli leyfa sér að kúga fólk og segja: Ef þetta mál verður ekki samþykkt fellur ríkisstjórnin, fyrsta vinstri stjórnin, og neyða sína samflokksmenn og samstarfsmenn í Vinstri grænum til að fylkja sér um málið. Er þetta heiðarlegt?