138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:45]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil byrja á því að biðja hæstv. forseta afsökunar á að ég skyldi ekki hafa beðið leyfis með tilvitnun.

Mér þykir leitt að hv. þingmaður skyldi hafa misst af þjóðfundinum því hann var ansi magnað fyrirbrigði og þar var heiðarleikinn einmitt það leiðarstef sem var sett fram í upphafi og var hann fólki, a.m.k. í þeim vinnuhópi sem ég tók þátt í, mjög hugleikinn og þá sérstaklega skortur á honum. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að mér finnst afgreiðsla þessa máls alveg frá því í sumar hafa einkennst af miklum óheiðarleika. Þetta er ekki það nýja Ísland sem fólk var að kalla eftir í sumar. Fólkið sem stóð hér fyrir utan var að biðja um gegnsæi, það vildi fá að vita hvað var að gerast. Það er mjög óþægilegt að vita ekki hvert stefnir í stjórn ríkisins og það er ýmislegt sem hefur kannski ekki enn þá komið fram um Icesave-samningana. Ég trúi því t.d. ekki að þeim hafi verið tjaslað saman á nokkrum dögum í júní. Þetta eru ekki þannig samningar. Ég held að búið hafi verið að ganga frá þeim löngu fyrir kosningar, svo það komi skýrt fram. Það er held ég fátt heiðarlegt við þetta mál allt saman.