138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvernig framhaldið verður með fundahöld. Það kom fram að matarhlé yrði milli sjö og hálf átta eða þar um bil og ég velti því fyrir mér hvort það gefi til kynna að forseti hafi áform um að halda kvöldfund. Ef svo er — ég ætlast ekki til að hæstv. forseti svari því en ég yrði þakklátur ef hæstv. forseti gæti látið kanna það hversu oft þingfundir hafa verið haldnir á laugardagskvöldum og af hvaða tilefni það hafi verið, ef hægt væri að kanna það í gagnasöfnum þingsins. Eins vildi ég spyrja forseta einnar spurningar um hvaða ráðherrar séu viðstaddir umræðuna í þinghúsinu og hvaða ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi fjarvistarleyfi.