138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að ganga eftir svörum við þeim spurningum sem ég bar fram í upphafi en ég geri mér grein fyrir að hæstv. forseti var upptekinn í öðrum málum inn á milli.

En í tilefni af orðum sem hér féllu, bæði úr ræðustól og eins út úr salnum, velti ég því fyrir mér hvort þingmenn almennt hefðu íhugað hvort það væri einsdæmi að í ræðustól Alþingis væru hafðar uppi efasemdir um heiðarleika einstakra þingmanna í sambandi við afgreiðslu einstakra mála. Hvort það væri mikið einsdæmi að menn væru ásakaðir um að ganga gegn sannfæringu sinni og hvort það væri mikið einsdæmi að hér væri haft á orði að menn væru að svíkja hitt eða þetta, þjóð sína, kjósendur eða eitthvað annað. Ég velti því fyrir mér hvort hægt væri að láta fletta því upp í ræðusafni hæstv. fjármálaráðherra í því sambandi.