138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:32]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Fundarstjórn forseta hófst kl. 10.30 í morgun og hefur gefið tilefni til nokkurra athugasemda af hálfu stjórnarandstæðinga þar sem við höfum mörg hver, hv. þingmenn, gert athugasemd við það að fyrirkomulag og skipulag þessa fundar hafi ekki verið með þeim hætti sem við teljum samboðið virðingu Alþingis. Í dag var því t.d. sleppt að gera eðlilegt hlé á fundi í hádeginu. Með eftirgangsmunum hafa fengist fundir með forseta til að komast að einhverri niðurstöðu um það hversu lengi þessi fundur skuli standa sem er eðlileg krafa, ekki vegna þess að hv. þingmenn vilji ekki taka þátt í umræðunni heldur vegna þess að það skiptir máli við skipulag þingstarfanna að menn sjái fyrir sér hvernig og hvenær fundi er slitið, þannig að það sé tryggt að allir sem vilja taka til máls komist á mælendaskrá o.s.frv.