138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér hafa verið bornar fram ýmsar spurningar til hæstv. forseta en fátt hefur verið um svör. Það gefur tilefni til þess að spurt sé enn þó að alla vega ég hafi ekki gaman af að staglast á hlutunum, en ég hlýt að spyrja aftur eins og fjölmargir þingmenn hafa gert hér: Hversu lengi stendur til að funda? Um leið vildi ég ítreka ósk um upplýsingar sem ég bar fram fyrir kvöldmatarhlé varðandi það hversu oft Alþingi hefur fundað á laugardagskvöldi og af hvaða tilefni. Þessar upplýsingar ætti að vera hægt að kalla fram í gögnum þingsins. Ég geri mér grein fyrir að það getur tekið einhvern smátíma en ég held að það geti skipt máli að afla þeirra upplýsinga og eins að fengið verði fram af hvaða tilefni það var, hafi það gerst.