138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:42]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hyggst svara þeim spurningum sem að henni hafa beinst þegar allir hafa borið fram sínar spurningar.

Forseti vill geta þess að fundi með þingflokksformönnum lauk fyrir u.þ.b. 15–17 mínútum og þar fékkst ekki niðurstaða um frekara þinghald en forseti lýsti því yfir að hún mun funda með formönnum þingflokka síðar í kvöld. Þingfundi verður haldið áfram hér þar til sá fundur hefur verið haldinn og menn komast að niðurstöðu um frekara þinghald, en það kom fram hjá þingflokksformönnum að þeir væru tilbúnir að halda áfram fundi fram eftir.

Varðandi beiðni um ráðherra í umræðuna vill forseti geta þess að hér eru bæði í húsi hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra. Ekki hefur verið óskað eftir öðrum ráðherrum heldur aðeins spurt hverjir séu hér og forseti er tilbúin til að kalla eftir þeim sem menn hafa verið að spyrja um. Reyndar var spurt um formann fjárlaganefndar og er hann væntanlegur í hús á næstu mínútum.

Þá tekur til máls hv. 7. þm. Reykv. n., Pétur H. Blöndal.

(PHB: Frú forseti. Aftur þarf ég að halda ræðu mína án þess að framsögumaður málsins sé viðstaddur.)

Það hafði farið fram hjá forseta að menn hefðu verið að biðja um þetta, þeir eru kannski að biðja um orðið á ekki mjög áberandi hátt. En ég bið þá hv. þingmann að fara úr stól og bið hann velvirðingar á þessu og gef orðið hv. þm. Illuga Gunnarssyni sem nýlega hefur lokið fundi með forseta. (Gripið fram í.)