138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:52]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætlaði að koma upp og taka undir orð hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar þess efnis að hvetja forseta til að gera stutt hlé, í 5–10 mínútur, og fara með starfsmönnum þingsins og hugsanlega forsætisnefnd yfir þingsköp og hvernig þessu er háttað. Ég get upplýst að ég hef verið hér í dag og ég hef ekki heyrt að farið hafi verið fram á kvöldfund. Ég bjóst fastlega við að slíkt yrði gert í upphafi fundar eftir kvöldmatarhlé og til þess hefði kvöldmatarhléið verið ætlað. Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að í dag fannst mér þessi vinnustýring á okkur þingmönnum alveg með ólíkindum, að við fengjum ekki að vita hvort við ættum að vera hér fram að kvöldmat eða eitthvað lengur við störf og meira að segja í átta og hálfan klukkutíma án þess að gert væri hlé til að fá eðlilegan matartíma. En nú er svo (Forseti hringir.) komið að mér blöskrar algerlega ef það virðist ekki einu sinni vera hægt að fylgja þeim þingsköpum sem er þó búið að kynna fyrir okkur nýjum þingmönnum með rækilegum hætti í vor og við gátum best lesið, og ekki (Forseti hringir.) heldur hægt að segja neitt til um hvenær þessum þingfundi skuli ljúka.