138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er eiginlega meginspurningin. Ég ber þá von, frú forseti, að hv. þingmenn allir, jafnt stjórnarliðar sem aðrir, hugleiði einmitt þessa spurningu. Hvað eigum við að gera? Ég held nefnilega að þrýstingurinn á málið sé horfinn. Þessi ræða fjármálaráðherra Hollands frá því í mars segir okkur að við eigum ekki að borga. Nú ættum við að gera smáhlé á þessari umræðu, allir þingmenn ættu að samþykkja að gera smáhlé á umræðunni af því að það liggur ekkert á lengur. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er búinn að setja sína vél í gang og hún gengur eins og klukka, þeir eru búnir að segja að þetta sé algerlega óháð Icesave. Norðmenn ætla að veita okkur lánið og við getum vísað í fjármálaráðherra Hollands um að við eigum ekkert að borga. Síðan búum við til sendinefnd sem allir flokkar komi að þannig að enginn geti sagt eftir á: Ég ber ekki ábyrgð á þessu. Það verði samið við Breta og Hollendinga eða þeim kynntir þessir fyrirvarar sem Alþingi gerði í sumar sem mér fannst vera afskaplega sanngjarnir. Þeir eru þannig að ef allt gengur vel á Íslandi, ef Brussel-viðmiðin halda, getum við borgað, frú forseti, og munum borga hverja einustu evru og hvert einasta pund. Ef forsendur Seðlabankans ganga eftir hef ég engar áhyggjur af því að Íslendingar muni ekki borga.

Það eru áföllin, frávikin, sem ég er hræddur við og ég legg til, frú forseti, að þessari umræðu verði frestað, ekki kannski í kvöld en á morgun eða hinn eða þriðjudaginn eða ég veit ekki hvað, og við búum til sameiginlega nefnd allra þingmanna. Enginn þingmaður er ánægður með þetta, ekki einn einasti. Ekki einu sinni fjármálaráðherra er ánægður með þetta þó að hann standi fyrir málinu. Ég legg til að við ræðum við Breta og Hollendinga og segjum við þá: Við ætlum að borga eins og við getum. Ef þeir fallast ekki á fyrirvarana frá því í sumar (Forseti hringir.) þurfa þeir að semja um miklu lægri vexti.