138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi svör. Ástæðan fyrir því að ég spurði þessarar spurningar áðan var í rauninni sú að ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig við getum notað sömu peningana oft. Mér virðist það nefnilega vera helsta hugmyndafræðin hjá hæstv. ríkisstjórn, að einstaklingar og fyrirtæki geti notað sömu peningana aftur og aftur í þeim tilgangi að annaðhvort kaupa vörur og þjónustu, borga af þeim skatta til samfélagsins eða spara. Ég sé ekki dæmið ganga upp. Ef um 70–80 þús. skattgreiðendur munu þurfa að borga af Icesave-reikningunum, hvernig er hægt að nota þá skatta t.d. til að standa undir velferðarkerfinu þegar þessir skattar fara í Icesave? Þeir nota ekki þá fjármuni til að spara meðan þeir borga sína sneið af þessari bragðvondu köku sem Icesave-samningurinn er. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta sé með þessum hætti að í fjárlagafrumvarpinu sem er nú verið að samþykkja — þar er ekki gert ráð fyrir afborgunum af Icesave-samkomulaginu ef ég man rétt — sé reiknað með öllum þessum sama tekjuskatti í tekjuhlið frumvarpsins og þarf að fara í að borga Icesave. Ef það er svo er fjárlagafrumvarpið á hliðinni.

Mig langar í seinna andsvari mínu að spyrja hv. þingmann út í þau orð sem hann vitnaði í áðan varðandi fjármálaráðherra Hollands. Gæti hv. þingmaður rifjað upp fyrir okkur, ef hann veit það, af hvaða tilefni ráðherrann sagði þessi orð sem hann lét falla varðandi að tryggingarinnstæðukerfið væri ekki hugsað til að taka á kerfishruni heldur frekar einstökum banka?