138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að sá fundur sem hér fer fram er ekki löglegur, hann er ekki í samræmi við þingsköp Alþingis. Ég vísa til 4. mgr. 10. gr. laga um þingsköp og ég vísa til lögskýringargagna. Ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi forseta, úr greinargerðinni. Þetta er eina atriðið í greinargerðinni sem vísar til þessa ákvæðis. Þar segir:

„Að draga úr kvöld- og næturfundum þannig að þeir heyri helst til undantekninga. Þingfundir standi að jafnaði ekki lengur en fram að kvöldmat en sé þörf á lengri fundartíma sé því beint inn á eitt kvöld vikunnar, þ.e. þriðjudagskvöld. Þingmenn geta þá haft það í huga við skipulagningu starfa sinna í viku hverri.“

Þetta er raunar í framsöguræðu hæstv. þáverandi forseta, Sturlu Böðvarssonar. Sami skilningur kemur fram í greinargerð með frumvarpinu og í nefndaráliti allsherjarnefndar sem um þetta fjallaði og ég reyndar sat í sem formaður á þeim tíma. Þar er skýrt að þessu vikið, að gert er ráð fyrir því að leitað sé samþykki þingsins ef ágreiningur er um hvort kvöldfund skuli halda eða ekki.