138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er hæstv. forseti sem hefur gerst sekur um lögbrot. Það getur vel verið að menn greini eitthvað á en lögin eru skýr og greinargerðin. Eins og sagt var og þar segir, með leyfi forseta:

„Ef ekki eru sammæli milli þingflokka um að fundir standi fram á kvöld (eða nótt) til að ljúka ákveðnum málum þarf sérstakt samþykki þingsins til þess að svo verði.“

Getur þetta verið öllu skýrara? Það sem vantar í þingsköpin núna er viðurlagaákvæði svo hægt sé að taka á því þegar forseti þingsins traðkar á lýðræðinu, traðkar á þingmönnum. Við skulum tala tæpitungulaust. Þetta er lögbrot. Ég spyr líka: Þorði forseti ekki í atkvæðagreiðslu? (Forseti hringir.) Þorði forseti ekki að láta greiða atkvæði um dagskrá þingsins, (Forseti hringir.) um að hér yrði kvöldfundur? Tími minn er ekki búinn.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmann um að gæta orða sinna.)

(Gripið fram í: Orða sinna?) Ég vitna í lögin. Lögin eru mitt haldreipi, ekki forseti þingsins.