138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Alltaf er hætta á því að menn geri mistök. Ég bið forseta að íhuga hvort starfsmenn Alþingis, eins góðir og vandaðir og þeir eru, gætu hafa gert mistök varðandi túlkun á þessum lögum. Hér stendur, frú forseti, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er stefnt að því að fækka kvöld- og næturfundum,“ — þetta er í lögskýringargögnum með þessum lögum — „að þeir heyri til undantekninga. Ef ekki eru sammæli milli þingflokka um að fundir standi fram á kvöld til að ljúka ákveðnum málum þarf sérstakt samþykki þingsins til að svo verði.“

Það hefur ekki verið gert, frú forseti, og þess vegna er sá fundur sem hér er ekki löglegur. En við erum að sjálfsögðu neydd til að vera hér áfram á meðan forseti brýtur á okkur með þeim hætti að láta ólöglegan fund viðgangast.

Mig langar að vitna í það sem þeir sem tóku þátt í þessari vinnu í allsherjarnefnd hafa sagt. Mig langar líka að spyrja frú forseta: Hvert leita þingmenn ef þeir telja að forseti brjóti af sér? Hvert á ég að snúa mér, frú forseti, þegar ég tel forseta brjóta á rétti mínum eða brjóta lög Alþingis? Hvert sný ég mér?