138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kom í ræðustól áðan og vitnaði í lögskýringargögn varðandi þetta mál. Lögskýringargögn er það sem við leitum í þegar við erum að túlka ákvæði laga og það er alveg skýrt að þau lögskýringargögn sem skipta máli í þessu sambandi eru greinargerð með frumvarpinu, framsöguræða flutningsmanns og nefndarálit þeirrar nefndar sem um málið fjallaði. Þessi þrjú lögskýringargögn, eða þrenn lögskýringargögn ef við viljum orða það þannig, eru öll á sama veg og ganga öll gegn túlkun forseta.

Ég skora á hæstv. forseta að gera hlé á þessum fundi, ræða við menn, taka stöðuna, fara yfir lögskýringargögnin. Ég vil reyndar geta þess, hæstv. forseti, að það tók mig innan við 5 mínútur að ná í þau lögskýringargögn sem máli skipta í þessu sambandi. Það er því tiltölulega einfalt að nálgast þær upplýsingar sem eru, samkvæmt öllum lögmálum lögfræðinnar, þau gögn sem við leitum í þegar við fjöllum um það hvernig túlka beri einstök lagaákvæði. Ég skora á hæstv. forseta að fresta fundi og taka fund með þingflokksformönnum eða öðrum til að koma þessu máli á hreint. (Gripið fram í.)