138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú hef ég verið hér í húsi í 10 mínútur en ég var að koma vestan af Ísafirði þar sem verið var að ljúka síðustu sprengingunni í Bolungarvíkurgöngunum. Ég verð að segja að mér finnst andrúmsloftið vera dálítið þyngra hér en þar. Ég verð að segja, eftir að hafa verið örfáar mínútur hér inni, að ég er eiginlega algerlega orðinn mát. Ég hélt að við ætluðum að taka okkur öll saman og endurheimta virðingu Alþingis. Ég held að það væri mjög skynsamlegt. Á þessum fáu mínútum sem ég hef verið inni þá met ég stöðuna þannig, reyndar eftir litla þingreynslu, að ekki sé mikið vit í að halda áfram á þessari braut. Það skilar engu okkar neinu.

Ég vil góðfúslega beina því til hæstv. forseta að slá þessum fundi á frest þó ekki væri nema í 15–20 mínútur, setjast niður með þingflokksformönnum og ræða við þá forustumenn Alþingis sem segja að þetta sé rétt með þessum hætti. Eins og þetta er núna skilar þetta okkur ekki neinu, engu okkar.