138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni sem eins og oft áður er rödd skynseminnar í þessum sal. Hann sér hlutina með réttsýnis- og réttmætisaugum. Það er ekki neinn tilgangur með því að halda þessum fundi áfram í þessu karpi. Ég spurði spurningar áðan: Gæti frú forseti vinsamlega bent mér á hvar í þingsköpunum er að finna ákvæði um óreglulega fundi? Mér þykir allsendis ófullnægjandi túlkun hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar á því hvað er reglulegt og hvað óreglulegt. Í anda þingskapalaganna sem ég man að voru sett nákvæmlega til að koma í veg fyrir uppákomur sem þessar var hvatt til samráðs og ef ekki væri samstaða um ákveðin mál skyldu þingmenn eiga tækifæri á að greiða um þau atkvæði. (Forseti hringir.) Það er það sem við förum fram á, frú forseti. Fyrst það er ágreiningur gerum við þá lýðræðislegu kröfu að fá að greiða um þetta atkvæði.