138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er búið að færa bæði gegnsæ og gild rök fyrir því að þetta er ólöglegur fundur, það er ekki hægt að mæla á móti því. Ég minni forseta á að þegar frú forseti var kosin forseti þingsins greiddu langflestir þingmanna Sjálfstæðisflokksins henni atkvæði af því að við treystum frú forseta. Við treystum því að hún mundi höndla alla þingmenn jafnt, að hún væri í liði með löggjafarvaldinu en ekki framkvæmdarvaldinu, að hún væri í liði allra þingmanna en ekki bara einstakra flokkahópa.

Ég veit að frú forseti býr yfir mildi og mannúð, við vitum það, hún er með gott hjartalag. Ég bið hana um að láta okkur njóta þess góða hjartalags, sýna reisn, viðurkenna mistök. Ef það er eitthvað sem við eigum að hafa lært á undanförnum mánuðum er það það að við eigum að viðurkenna mistök. Forseti á einfaldlega að standa á fætur, gera hlé á þessum fundi og viðurkenna þau mistök (Forseti hringir.) að það er verið að traðka á lýðræðinu með þeirri túlkun sem forseti setur fram við þingheim allan.