138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan er ég búinn að vera í húsi í á að giska 20 mínútur og af því að ég er búinn að vera skipstjóri í mörg ár verð ég að viðurkenna að ef ég ætti að fara með þessa áhöfn á sjó mundi ég ekki leysa bátinn. Ég verð að viðurkenna það. (ÞKG: Þar er ég sammála.) Ég held að það eigi alveg jafnt við um þá sem eru í stjórn og stjórnarandstöðu. Ég held að það væri mjög skynsamlegt af virðulegum forseta þótt ekki væri nema aðeins að reyna að tappa mesta þrýstingnum af hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum hér inni, ég held að það væri mjög skynsamlegt því að eins og við erum að vinna núna skilar þetta okkur ekki neinu. Og það versta er, virðulegi forseti, að við erum ekki að vinna að því sem við hétum að gera, að ávinna okkur aftur virðingu Alþingis. Það er mjög dapurlegt að við skulum lenda í þessu akkúrat í þessu stóra og mikilvæga máli. Þess vegna bið ég þig í einlægni, virðulegi forseti, að fresta þessum fundi og reyna að tappa aðeins þrýstingnum af fólkinu hér inni.