138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að ráðið til að leysa þennan ágreining sem hérna hefur komið upp í góðu …

(Forseti (ÁRJ): Þetta er ræða.)

Hæstv. forseti. Já, þetta er ræða og ég tel rétt að ræða þetta í mínum ræðutíma. Þannig er, hæstv forseti, að ég tel rétt að hæstv. forseti geri a.m.k. hlé á þessum fundi, setjist niður með mönnum hérna, fari fyrir lögskýringargögn, fari yfir rök og gagnrök fyrir þeim mismunandi sjónarmiðum sem hafa komið fram um þennan kvöldfund og reyni að komast að réttri og sanngjarnri niðurstöðu. Ég held að það sé betra en að við höldum áfram einhverri þrjóskukeppni sem enginn vinnur vegna þess að staðan er sú að öll gögn varðandi það hvort þessi kvöldfundur er heimill eða ekki eru á einn veg. Menn deila um túlkun lagaákvæðis, og hvað gera menn þegar menn deila um túlkun lagaákvæða? Þá fara menn í lögskýringargögn. Hver eru þau lögskýringargögn sem að mestu haldi koma við lögskýringar? Ég get upplýst að það eru greinargerð með frumvarpinu, framsaga framsögumanns og reyndar umræður í þinginu að öðru leyti og nefndarálit þeirrar nefndar sem um málið fjallar. Þetta eru lögskýringargögnin, þetta eru þau gögn sem lögfræðingar líta á til að reyna að átta sig á því hvað stendur í lagaákvæðum ef um það er deilt. Og ég skora á hæstv. forseta að gera það.

Ég gat þess áðan að öll þessi gögn væru á einn veg. Þau gefa öll til kynna að túlka beri ákvæði 4. mgr. 10. gr. þingskapa með þeim hætti að ef ágreiningur er um það milli þingflokka skuli ávallt leita samþykkis þingsins fyrir því að halda kvöldfundi. Og við skulum velta fyrir okkur hver tilgangur þessa ákvæðis sé. Það er líka vinsæl aðferð í lögfræði þegar við túlkum lagaákvæði, að reyna að átta sig á tilganginum. Hver er tilgangur þess að setja það inn í þingsköpin að leita skuli samþykkis þingsins? Það er auðvitað til að reyna að gæta réttar þingmanna. Er það ekki ljóst? Hlýtur það ekki að vera þannig? Það hlýtur að vera til að gæta réttar þingmanna. Það er til að það sé klárt að ef það er ágreiningur milli þingflokka um það hvort halda skuli kvöldfundi sé það a.m.k. ákvörðun meiri hluta Alþingis að fundinn skuli halda. Þetta er gert til að standa vörð um réttindi þingmanna. Er þá ekki rétt, hæstv. forseti, að nota þetta líka til hliðsjónar þegar verið er að túlka ákvæðið? Hvers vegna kom þetta ákvæði inn í þingsköpin þegar við breyttum þingsköpunum árið 2007? Til að draga úr kvöld- og næturfundum. Það er nokkuð ljóst. Hvaða heimildir höfum við um það hvað löggjafinn hafði í huga á þessum tíma? Bæði ég og hæstv. forseti áttum sæti á þingi á þessum tíma og tókum þátt í afgreiðslu þessa máls, en hvaða heimildir höfum við um það hvað menn voru að hugsa? Umræður í þinginu, nefndarálit og greinargerð með frumvarpinu. Eigum við þá ekki að túlka ákvæðið með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í ræðu framsögumanns og nefndaráliti? Er það ekki skynsamleg leið til að gera þetta? Ég skora á forseta þó að hér hafi ýmis orð fallið sem betur hefðu verið látin ósögð eins og oft gerist í hita leiksins að við reynum aðeins að anda með nefinu og leysa málið á grundvelli þingskapanna, á grundvelli réttrar túlkunar á þingsköpunum, ekki að reyna að standa við ranga ákvörðun vegna þrjósku, hæstv. forseti.

Þetta mál snýst um það hvort þingmenn eiga einhver réttindi þegar átök eiga sér stað í þinginu. Ef gengið er á réttindi þeirra á einu sviði óttast þeir auðvitað að gengið verði á réttindi þeirra á öðru sviði. Þingsköpin eru sett til að tryggja að störf fari fram með skynsamlegum og skilvirkum hætti og þau eru líka til að standa vörð um rétt þingmanna, sérstaklega þegar reynir á eins og kannski í þessu máli. Í allri einlægni og sanngirni tel ég langaffarasælast að setjast niður, reyna að ræða þessi mál, fara yfir þetta og komast síðan að þeirri niðurstöðu sem lögskýringargögnin gefa tilefni til, komast að þeirri niðurstöðu sem nefndarálitið bendir til, komast að þeirri niðurstöðu sem ræða framsögumanns með frumvarpinu bendir til, komast að þeirri niðurstöðu sem nefndarálit allsherjarnefndar bendir til, komast að þeirri niðurstöðu sem er í samræmi við heilbrigða skynsemi. Ef við stöndum frammi fyrir tveimur túlkunarmöguleikum og annar er í samræmi við heilbrigða skynsemi og hinn ekki reynum við auðvitað að taka ákvörðun í anda heilbrigðrar skynsemi. Við gerum það öll og ég treysti því að hæstv. forseti geri það líka. Þetta ætti ekki að vera flókið og þetta ætti ekki að þurfa að valda svona miklum ágreiningi. Hæstv. forseti hefði auðvitað átt að gera fundarhlé um leið og alvarlegar athugasemdir komu fram við túlkun hans og hefði getað sparað sér og okkur þingmönnum mikið ómak með því. En það er enn þá hægt að setjast niður og reyna að finna einhverja lausn á þessu, reyna að finna einhverja túlkun sem menn geta verið sáttir við, ella stöndum við frammi fyrir því að við þurfum að ræða um túlkun þingskapa (Heilbrrh.: Það er nú ekki í fyrsta sinn.) næstu klukkustundirnar og kannski lengur. (Heilbrrh.: Það er nú ekki í fyrsta sinn.) Það er ekki í fyrsta sinn, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra sem kallar töluvert fram í getur um. Það er gaman að frammíköllum hæstv. heilbrigðisráðherra og væri enn þá skemmtilegra að fá hæstv. heilbrigðisráðherra í ræðustól til að tjá skoðanir sínar á þessu máli. Hún hefur raunar ekki gert það. Ég hef velt fyrir mér hvort ég gæti fundið flöt á að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um einhver atriði í þessu sambandi en þetta er ekki á hennar málefnasviði. Hún hlýtur samt eins og aðrir þingmenn að hafa skoðun á þessu máli, hún hlýtur að hafa rök fyrir afstöðu sinni og það væri ánægjulegt ef hæstv. heilbrigðisráðherra væri tilbúin að deila þeim sjónarmiðum með okkur, (Heilbrrh.: … hlusta.) ef hún væri tilbúin — það er gott að hlusta, hæstv. heilbrigðisráðherra, það er fínt, mjög gott. Þegar menn hafa hlustað vel hafa þeir væntanlega myndað sér skoðun og þá er rétt að leyfa öðrum þingmönnum að njóta þess með sér hvaða skoðun menn hafa á málum.

Aftur að því sem ég kom upp til að ræða um. Ég vil reyndar geta þess, hæstv. forseti, að það eru mjög mörg atriði sem varða Icesave-málið sjálft sem ég vildi gjarnan ræða hérna, mjög mörg atriði sem ég hef ekki haft tækifæri til að koma inn á í þeim ræðum sem ég hef þegar haldið, mjög mörg atriði. Það eru mjög mörg atriði sem ég vildi koma inn á. En í þessu tilviki á þessum tímapunkti í störfum þingsins get ég ekki annað en notað þann stutta tíma sem ég hef í ræðustól að þessu sinni til að hvetja hæstv. forseta til að leysa málið af skynsemi, leysa málið með þeim hætti að allir geti verið fullsæmdir af, leysa málið í samræmi við ákvæði þingskapa eins og þau eru túlkuð samkvæmt viðurkenndum og hefðbundnum lögskýringargögnum. (ÁÞS: Nú?) Gæti ég fengið þögn? Takk fyrir.

Ég heyri að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er farinn að ókyrrast mjög í salnum, ókyrrast mjög undir ræðu minni. (Gripið fram í.) Það væri mjög gott ef hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gæti komið hér upp og reynt að rökstyðja mál sitt í staðinn fyrir að hreyta út úr sér einhverjum einsatkvæðisorðum úti í sal. (Gripið fram í.) Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur í engu svarað þeim sjónarmiðum sem ég hef komið fram með varðandi lögskýringargögnin. Hann hefur ekki með nokkrum hætti sýnt fram á að það sé nokkur skynsamleg ástæða til að túlka ákvæðið með þeim hætti sem hann gerir, ekki nokkur skynsamleg ástæða. Hvaða rök ættu svo sem líka að vera fyrir því að á óreglulegum þingdögum gildi eitthvað slakari reglur en á reglulegum þingdögum? Hvaða rök eru fyrir því? Af hverju ætti réttur þingmanna að vera minni á þeim dögum sem boðað er til óreglulegra þingfunda en á þeim dögum sem boðað er til reglulegra þingfunda? Ég bið menn að leita í hugarskoti sínu að einhverri skynsamlegri ástæðu fyrir því. Af hverju ættum við á laugardegi að njóta minni (Forseti hringir.) réttinda en á föstudegi?