138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir spyr spurninga sem vissulega eru mjög mikilvægar. Fyrir það fyrsta vil ég segja að meðan við erum í þingsal eigum við öll að reyna að fylgja þingsköpum eftir því sem við best getum. Það á við um okkur þingmenn og við eigum að reyna að gera það. Staða okkar er auðvitað mjög skrýtin að því leyti að fram fer fundur sem er í ósamræmi við ákvæði þingskapa. Hér fer fram fundur sem ég mundi ætla að væri t.d. ekki ályktunarbær um eitt eða neitt. Ég held að það mundi ekki standast að þessi fundur ályktaði um eitt eða neitt vegna þess að ég álít að það sem er að gerast hérna sé í rauninni ekki lögmætt, lögmætur þingfundur. En látum það vera.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að á árinu 2007 voru gerðar verulegar breytingar á þingsköpum. Það ákvæði sem deilt er um kom nýtt inn í þingsköpin á þeim tíma, sem þýðir að það sem gerðist fyrir 2007 hefur ekkert gildi fyrr en við skýrum það ákvæði. Þetta var nýtt ákvæði þá. Það sem gerðist fyrir 2007 skiptir því ekki máli. Þá veltum við fyrir okkur á hvað við getum litið þegar við ætlum að túlka ákvæðið. Það er eins og ég hef margoft nefnt, þ.e. nefndarálit, greinargerð með frumvarpinu og ummæli framsögumanns og ef einhver athugasemd hefði komið frá þingmönnum við ákvæðið í umræðunum sem máli skiptir mundi það líka hafa gildi, minna gildi en greinargerðin og nefndarálitið, en það mundi hugsanlega hafa eitthvert gildi, en það var ekki. Það sem við finnum í lögskýringargögnum er nákvæmlega þetta þrennt. Það er greinargerðin með frumvarpinu, það eru orð framsögumanns í framsöguræðu og það er nefndarálitið og allt er það á einn veg og gengur gegn þeirri túlkun sem forseti heldur uppi.