138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:09]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er pínulítið ringluð yfir þessum vinnubrögðum. Það er mikið vísað í að þetta hafi verið svona einu sinni og svona hinsegin og allt einhverjum öðrum að kenna af hverju þetta var svona en ekki hinsegin. En getur verið að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans átti sig ekki á því að við erum í raun og veru að skrifa söguna, að í hvert einasta skipti sem við stígum hérna inn erum við að búa til nýjan veruleika? Ef fortíðin var svona hörmuleg, er þá ekki lag til að breyta því þannig að framtíðin verði aðeins skárri? Hvernig telur hv. þm. Birgir Ármannsson að möguleiki sé á að ná einhverri ásættanlegri niðurstöðu með svona hluti, eins og það sem gerðist í kvöld, með því að vísa stöðugt til fortíðarinnar? Væri ekki nær lagi að viðurkenna e.t.v. möguleg mistök, því að þetta er kannski fordæmalaus þingfundur, og gera hlé á fundinum og kalla saman þingflokksformenn og finna einhverja sátt? Ég upplifi að það verður engin sátt í kvöld, það verður bara talað um þetta í allt kvöld. Er það uppbyggilegt? Er það góður tónn í öll þau erfiðu mál sem við ættum að þurfa og geta unnið í samvinnu við stjórnarmeirihlutann? Það sem ég hef áhyggjur af er einmitt — ég treysti því þegar ég kaus hæstv. forseta að hún væri forseti okkar allra — að mér finnst þetta ekki vera í anda þess sem ég hefði haldið að væri gert af forseta allra þingmanna.