138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég lít á þennan fund sem ólöglegan og mun minna reglulega á það sem eftir lifir fundarins, eða hvað á að kalla það sem er í gangi af því að samkvæmt fundarsköpum og lögskýringum sem þeim fylgja lauk löglegum fundi um kl. 20 í síðasta lagi. Forseti hefur ekki óskað eftir lengri fundi og ekki farið fram atkvæðagreiðsla um hann enda er það orðið fullseint held ég.

Við erum hér, frú forseti, vegna þess að forseti hefur ákveðið að fundur haldi áfram. Þess vegna erum við hér enn þá. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, frú forseti, að við erum stödd hér á þessari stundu vegna þess að forseti ákvað að halda áfram fundi þótt hann sé ekki lögmætur. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, frú forseti, að ég sé ekki ástæðu til að funda með þingflokksformönnum og forseta meðan fundurinn stendur yfir en verði gert hlé á honum til að ráða fram úr þessu á það að sjálfsögðu ekki við.

Mig langar að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson sem er löglærður maður en það er ég ekki — ég er hins vegar þokkalega læs og ég hef lesið þessi lögskýringargögn — mig langar að spyrja hv. þingmann og einnig vegna þess að hann hefur verið töluvert lengur á þingi en ég hvort hann muni eftir svona uppákomu sem hér er á ferðinni. Það hlýtur að vera einsdæmi að forseti skuli halda áfram fundi þegar stór hluti fundarmanna hefur efasemdir um að fundurinn sé löglegur og það er ekki einu sinni gerð tilraun, hv. þingmaður, til að fá botn í það hvort svo er eða ekki.