138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson, ég hef reynt að koma þessum sjónarmiðum á framfæri við forseta en tel að það hafi gengið brösulega. Fyrst ég er staddur hér langar mig að spyrja hæstv. forseta um það hvar ég sem þingmaður leita réttar míns ef ég tel að forseti brjóti á rétti mínum.

Mig langar að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson einnar spurningar sem er auðvitað ekki víst að hann geti svarað á augabragði. Ég spyr ekki að ástæðulausu, ég spyr vegna þess að mér er í raun algjörlega fyrirmunað að skilja þá stjórnun sem höfð er á þinginu í dag. Mér er alveg fyrirmunað að skilja hvernig forseti ætlar að halda áfram samstarfi við þingmenn. Í 2. tölul. 2. mgr. 44. gr. þingskapa er talað um hvernig farið er með vantraust á ríkisstjórn eða ráðherra. Ég var að velta því fyrir mér þegar ég fór í gegnum hugann og áttaði mig á því hvernig andinn er hér og hvernig forseti ætlar að stýra þessum fundi hvort þessi grein ætti við fleiri embættismenn eða t.d. þá sem eru kjörnir af Alþingi. Á þetta við um aðila sem Alþingi kýs eða gilda aðrar reglur þar um? Mér finnst a.m.k. mjög eðlilegt að við þingmenn sem höfum eytt drjúgum tíma í kvöld á ólöglegum fundi — ég tek það fram, frú forseti, að þessi fundur er ólöglegur að mínu mati — veltum fyrir okkur hvort eðlilegt sé að styðja áfram það stjórnvald sem fer með stjórn á þingi þegar því er stjórnað með þessum hætti.