138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

upphæð persónuafsláttar.

[10:40]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram á haustdögum mátti þar sjá í umfjöllun um tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt einstaklinga grein sem fjallar um hið alvarlega efnahagsástand og það útskýrt að í ljósi þess verði persónuafsláttur ekki hækkaður á milli ára. Þetta voru þó nokkur tíðindi vegna þess að við höfum tiltölulega nýlega bundið hækkun persónuafsláttarins við vísitölu.

Í millitíðinni höfum við fengið þau tíðindi frá ríkisstjórninni að persónuafslátturinn verði reyndar hækkaður um 2 þús. kr. Ég vil inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hversu mikið persónuafslátturinn hefði hækkað ef vísitölutengingin hefði ekki verið afnumin. Nú hefur ríkisstjórnin í öllum sínum útreikningum lagt svo mikla áherslu á það og hæstv. fjármálaráðherra síðast í Fréttablaðsgrein í dag að tekjuskattur á öll laun undir 270 þús. kr. muni lækka. Skattbyrði þeirra sem eru með undir 270 þús. kr. muni lækka. Ég fæ ekki betur séð en að þessi ríkisstjórn sé með sínum heildstæðu aðgerðum einmitt að hækka skattbyrðina á þennan tekjuhóp. En það skiptir miklu máli að við höfum upplýsingar um það í þingsal hvað er rétt og satt í þessu eða er ríkisstjórnin hér kannski að beita blekkingum með einhverjum reiknikúnstum? Fáum það á hreint. Ég vil fá það á hreint frá hæstv. fjármálaráðherra hvað persónuafslátturinn hefði hækkað mikið um áramótin ef ekki hefðu komið til þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar og bera það síðan saman við það sem ríkisstjórnin ætlar að hækka persónuafsláttinn um.