138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

upphæð persónuafsláttar.

[10:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta er fullkomlega innstæðulaus orðanotkun. Þetta er eins skýrt og nokkuð getur verið og enda augljóslega ekkert hægt að fela í þeim efnum. Það er örfárra mínútna verk fyrir menn sem eru sæmilega að sér um skattkerfið að átta sig á því hvað fólgið er í tillögum þeim sem nú liggja fyrir í frumvarpsformi og að tala um blekkingar í þeim efnum þegar það er lagt á borðið og ekkert falið í þeim efnum. Nema formaður Sjálfstæðisflokksins sé svo gikkfastur á árinu 2007 að hann telji að það hafi verið þjóðhagslegar forsendur eða efnahagslegar forsendur fyrir því að missa 9 milljarða út úr tekjuskattskerfinu (BjarnB: Það á að segja satt ...) í staðinn fyrir að horfst sé í augu við að að sjálfsögðu verður þessi stóri tekjustofn ríkisins að leggja sitt af mörkum ef menn ætla að ná endum saman í ríkisbúskapnum (Gripið fram í.) á næstu árum. Það eru engin töfrabrögð til í þessu og það er sagt nákvæmlega satt í þessum efnum. Útkoman er sú (Forseti hringir.) að það tekst að hlífa launum upp að 270 þús. með þessari aðferð. Það er staðreynd. (Gripið fram í.) Hitt er eitthvað 2007-rugl í sjálfstæðismönnum. (Gripið fram í.)