138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

breytingar á fæðingarorlofi.

[10:59]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Mér léttir vissulega, frú forseti, að heyra að fólk hefur þá val á að skerða tekjur sínar frekar en að skerða rétt barna til næringar.

Mig langar að nota tækifærið fyrst ég er hérna í pontu og benda hæstv. heilbrigðisráðherra á langtímaáhrif brjóstagjafar. Það hefur verið sannað að áhrifin koma fram í heilsu allt lífið með lægri blóðþrýstingi, lægra kólesteról í blóði. Þeim sem fengið hafa brjóstamjólk á fyrstu mánuðum ævi sinnar er ekki eins hætt við því að verða of feitir eða hreinlega að þjást af offitu og sykursýki 2 er líka sjaldgæfari hjá þeim sem fengið hafa þessa næringu í frumbernsku. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á meiri gáfur þeirra sem nærast á brjóstamjólk fyrstu mánuðina. Með því að heimila brjóstagjöf og fæðingarorlof í sex mánuði hjá mæðrum komum við í veg fyrir þessa sjúkdóma eða minnkum hættuna á þeim í framtíðinni. Ég vil benda hæstv. heilbrigðisráðherra á það.