138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

Icesave.

[11:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Sú staða sem upp kom og þær skekkjur eða þeir ágallar sem voru á þessu innlánstryggingarkerfi þar sem það fyrirkomulag er mögulegt að bankar í litlu landi, eða stóru eftir atvikum, geta verið með svo umfangsmikla starfsemi á öllu svæðinu að þeir eru í raun og veru ofvaxnir hagkerfi viðkomandi ríkja og tryggingarkerfið þá í raun og veru líka, nái ekki fram markmiðum sínum, komst auðvitað í kastljósið í hruninu sl. haust. Það rann kannski betur upp fyrir mönnum sú staðreynd sem ekki var öllum ljós áður að nokkur ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eru með mjög skökk hlutföll í þessum efnum. Það gæti því komið upp staða sem er kannski ekki eins ýkt og á Íslandi en þó allt að því og getur það átt við um nokkur ríki á þessu svæði. Þar má nefna Írland, Lúxemborg og Stóra-Bretland sem eru með hlutfallslega mjög stór bankakerfi miðað við stærð hagkerfa. Þar fyrir utan er svo Sviss sem er með risavaxið bankakerfi, sem er eiginlega alþjóðlegt vandamál ef það lendir í vandræðum, enda lítið leyndarmál að Bandaríkjamenn og fleiri sjá það fyrir sér að þar yrði að koma til hjálpar utan frá ef illa færi. Þessu sjónarmiði okkar, eins og ég sagði áðan, hefur auðvitað verið haldið uppi allan tímann. Við höfum aldrei fengið neinar undirtektir undir það. Það er nægilegt að lesa umræðurnar í desember 2008 því til stuðnings, greinargerð með þingsályktunartillögu, framsöguræðu þáverandi formanns utanríkismálanefndar, Bjarna Benediktssonar, o.s.frv. Þessu var áfram haldið til haga á útmánuðum þessa árs en niðurstaðan varð alltaf sú sama. Við komumst hvorki lönd né strönd á grundvelli þessara sjónarmiða okkar þannig að það hefur ekki verið annað í boði af okkar hálfu en að halda þessu einhliða á lofti. Það hefur verið gert og það er gert. Þannig er staðan ósköp einfaldlega og í hnotskurn og það á hv. þingmaður eins og aðrir að þekkja.