138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:14]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra og einnig í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, starfandi formanns þingflokks Vinstri grænna, að hér biðu í þinginu mjög brýn mál sem sneru m.a. að fjárlögum sem þyrftu að komast til umræðu. Það var á máli hv. þingmanna að skilja að það lægi mjög á. Því er ég sammála. Því vil ég beina því til forseta að skoða 63. gr. þingskapalaganna en þar stendur í 2. mgr.: Forseti getur breytt röðinni á þeim málum sem eru á dagskrá.

Ég vil benda á að það er í valdi forseta að verða við þeim óskum sem komið hafa frá stjórnarliðum sjálfum um að tekin séu mál til afgreiðslu sem skiptir mjög svo miklu máli fyrir íslenska þjóð að ganga frá. Þess vegna vil ég líka ítreka það tilboð sem stjórnarandstaðan hefur gert sem er samstofna þessu ákvæði sem er í þingsköpunum (Forseti hringir.) og hleypa þessum málum í gegn og halda síðan áfram að ræða Icesave-samkomulagið. Það hlýtur að vera skynsamleg stjórn á þinginu, frú forseti.