138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að halda því til haga að ég er ekki að ræða fundarstjórn forseta, ég er komin í ræðu um Icesave-málið eftir því sem mér skilst, er það ekki? (Gripið fram í.) Ég sá á eftirvæntingarsvip hv. þingmanna að þeir bjuggust við einhverju öðru.

Það hefur verið ákveðið af stjórnendum hv. Alþingis að ræða áfram Icesave-málið og ég skal svo sannarlega ekki skorast undan því. Ég held að það sé eitthvað sem ætti að ræða á fundi hæstv. forseta með formönnum þingflokka á eftir, að íhuga tillögu okkar í stjórnarandstöðunni að setja þetta mál til hliðar og gera á því hlé þannig að við getum tekið fyrir hin brýnu málin vegna þess að þessu máli er hvergi nærri lokið. Ég verð að segja að eftir atburði helgarinnar hér í þinginu varð mér samt óneitanlega hugsað til þess á þessum góða frídegi í gær, sem ég notaði til að vera með fjölskyldunni minni og ætlaði ekkert að hugsa um þingstörfin, hvernig við gætum komist út úr þessu máli, hvernig við gætum reynt að lenda því og hvað það er sem við í stjórnarandstöðunni viljum fá út úr þessum umræðum. Ég verð að svara því fyrir sjálfa mig að þessu máli er ekki lokið af hálfu þingsins. Þessu máli verður að halda áfram þangað til við í stjórnarandstöðunni erum búin að sannfæra stjórnarmeirihlutann um að þessi samningur og þetta frumvarp eru fullkomlega óásættanleg. Það er þrýst á okkur þingmenn úr öllum áttum. Það er þrýst á okkur að samþykkja ekki þennan samning vegna þess að fólk veit að við erum hér til að koma hlutunum í betra horf og það treystir á okkur. Það eru undirskriftasafnanir í gangi. Það er okkar að stöðva það að þetta nái fram að ganga. Ég verð að segja að eftir fyrirspurnatímann áðan er ég enn þá meira þeirrar skoðunar að það megi ekki gerast vegna þess að það var hreint með ólíkindum að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra svara fyrirspurnum varðandi ummæli fjármálaráðherra Hollands sem féllu þó ekki núna um helgina, eftir að samningurinn var undirritaður í júní eða eftir að frumvarpið kom aftur til þingsins í október. Nei, þessi ummæli fjármálaráðherra Hollands féllu í mars og hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon segir okkur á mjög aumkunarverðan hátt að því hafi verið reynt að halda til haga í samningaferlinu, að þetta hafi endalaust verið haft uppi á borðum en það hafi enginn tekið undir það. Þetta er einfaldlega rangt, frú forseti, vegna þess að það kom í ljós í sumar og var í umræðunni — þetta er ekki í fyrsta sinn sem við höldum þessu fram — að það var víst tekið undir þetta af engum ómerkari mönnum en fjármálaráðherrum Bretlands og Hollands.

Vitnað hefur verið í ræðu fjármálaráðherra Hollands frá því í mars og Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, hefur líka sagt að Bretar ætli sér ekki að ábyrgjast innstæður utan yfirráðasvæðis breska fjármálaeftirlitsins. Af hverju ættu Íslendingar að gera það? Þá skulum við aðeins fara yfir hvernig þetta hefur endalaust verið haft uppi á borðum.

Frú forseti. Er hægt að fá hæstv. fjármálaráðherra inn í salinn? Ég ætla að beina til hans spurningu.

Ég hef verið óþreytandi, eins og hæstv. fjármálaráðherra veit, við að kalla eftir gögnum í þessum máli og hæstv. fjármálaráðherra verður alltaf pirraðri og pirraðri á því og sakar mig um að væna sig um að sinna ekki starfinu sínu. En hæstv. fjármálaráðherra, nú ætla ég að beina fyrirspurn úr þessum stól og síðan ætla ég að beina formlegri fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra, vegna þess að eins og ég hef verið að segja eru alltaf að koma fram nýjar og nýjar upplýsingar í þessu máli og það er hvergi nærri fullrætt.

Hæstv. fjármálaráðherra upplýsti áðan að hann hefði tekið þetta mál upp á ECOFIN-fundi í nóvember sl. Ég óska hér með formlega eftir því að fundargerð af fundi fjármálaráðherra Evrópusambandsins og fjármálaráðherra EFTA-ríkjanna á þessum ECOFIN-fundi verði gerð opinber. Hæstv. fjármálaráðherra upplýsti þar að auki að hann hefði átt a.m.k. þrjá fundi með Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, þar sem hann hefði ítrekað þessa kröfu okkar. Ég óska eftir því formlega að fundargerðir af þessum þremur fundum, og eftir atvikum fleiri ef þeir hafa verið haldnir, verði gerðar opinberar. Enn fremur upplýsti hæstv. fjármálaráðherra í ræðum sínum áðan að átt hefðu sér stað fjölmörg símtöl og samtöl um þessi mál við hina og þessa. Ég óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra geri opinberan lista yfir þessi símtöl og samtöl og geri opinberar frásagnir og fundargerðir af öllu saman þannig að við getum lagt á það mat, ekki bara á það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt um þessi mál heldur hvaða viðbrögð hann hefur fengið. Það er algerlega óásættanlegt að þessari lagalegu óvissu sé haldið, að það hafi endalaust verið uppi á borðum en að ekki hafi verið tekið undir það. Þegar við sjáum í opinberum gögnum af ræðum fjármálaráðherra Hollands, frá ummælum fjármálaráðherra Bretlands og fleiri að þeir taka einmitt undir þessi sjónarmið, vil ég fá að vita hvernig þessi samskipti hafa verið. Ég fer ekki fram á neitt meira að þessu sinni. Það er þess vegna, frú forseti, sem við verðum að gefa þessu máli allan þann tíma sem við þurfum. Við verðum að upplýsa þetta vegna þess að eins og fram kemur í grein í Morgunblaðinu í dag frá Ragnari Halldóri Hall hæstaréttarlögmanni sem tekur sérstaklega fram hver maðurinn er fyrir neðan greinina: Höfundur er lögmaður og ekki félagi í stjórnmálaflokki og verður aldrei vændur um að vera í einhverju pólitísku karpi um þetta mál.

Hér er fagmaður, hæstaréttarlögmaður sem þekkir þessi mál út og inn og svo mikið að einn af fyrirvörunum sem við höfum rætt mest í þessari umræðu allri saman er kenndur við hann. Hann dregur í efa nákvæmlega það sem ég hef dregið í efa í ræðustól og í vinnu á hv. Alþingi og hæstv. fjármálaráðherra hefur alltaf afgreitt sem einhvern áróður eða pólitískan leik af minni hálfu. Ég vísa því á bug. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í þessa grein. Ég sé að þær 10 mínútur sem ég hef eru óðum á enda og ég bið hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá. Með leyfi forseta segir í þessari ágætu grein sem heitir: „Er rétt að samþykkja þetta frumvarp?“

„Í Icesave-deilunni hefur verið staðið með öðrum hætti að hagsmunagæslu fyrir okkur — við höfum nánast boðið Bretum og Hollendingum að stilla upp þeim samningum sem við eigum að skrifa undir. Allir vita að þessar þjóðir hafa misbeitt áhrifum sínum innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins til knýja á um niðurstöður sér í hag og þess sér ekki stað að íslenska ríkisstjórnin hafi reynt að spyrna á móti, svo einkennilegt sem það er.“

Síðar í greininni spyr lögmaðurinn, með leyfi forseta:

„Hvaða sjálfstæð þjóð lætur bjóða sér það í samningum af þessu tagi að viðsemjendur lýsi einfaldlega frati á dómstóla landsins og heimti að fá sjálfir að dæma í málum sem annars ætti að dæma um í hinu landinu? Svarið liggur nú fyrir: Ísland.“

Ég les þetta á miklum handahlaupum vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu áðan að það hafi verið reynt að halda til haga þessari lagalegu óvissu. Lögmaðurinn segir hér að það hafi ekki verið nægilega vel gert, ég endurtek það hér. Ég bið því hæstv. fjármálaráðherra sem boðaði þau gleðitíðindi áðan að hann ætlaði að taka þátt í umræðunni í dag, ekki bara sitja og hlusta að útskýra þetta fyrir okkur. Og varðandi að það hafi aldrei verið neinar undirtektir við þetta er það rangt. (Forseti hringir.) Samningurinn er undirritaður 5. júní. Þessir menn töluðu um þetta miklu fyrr, frú forseti, og ég bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.