138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður verður að eiga það við sig hvort hún telji mig pirraðan þegar ég reyni að koma hér eins miklu að í stuttu andsvari og ég get. Auðvitað vil ég vissulega staðfesta að hv. þingmaður hins vegar geislaði hér af gleði og er í afar góðu skapi þegar hún ræðir þessi mál, það er alveg á sínum stað.

Við getum rætt um þetta og þekkjum bæði eitthvað inn á þetta. Ég hef farið með samtals fjögur ráðuneyti í hátt í fjögur ár þannig að einhverja reynslu hef ég af því hvernig þetta gerist og ég veit að þetta er með mjög mismunandi hætti eftir því hvert efni og fyrirkomulag slíkra funda er. Á marghliða fundum eru iðulega færðar fundargerðir en þá er það yfirleitt þannig að menn staðfesta að þær séu rétt færðar hver fyrir sig. Á tvíhliða fundum er það síður venjan vegna þess að þá taka viðstaddir embættismenn, ef einhverjir eru, niður minnispunkta til að vinna úr, en það er ekki þannig að af báðum aðilum sé samþykkt einhver formleg fundargerð, (Gripið fram í.) enda er það ekki venjan. Slíkir fundir yrðu öðruvísi ef það væri gert, eðli málsins samkvæmt.

Svo gerist það að ráðherrar eiga einir með sér trúnaðarsamtöl þar sem enginn annar er viðstaddur og að sjálfsögðu er þar engin fundargerð færð. Þá snýst þetta um það hvort menn treysta því að viðkomandi menn sinni skyldum sínum, vinni vinnuna og haldi á hagsmunum landsins. Auðvitað geta menn endalaust (Forseti hringir.) tortryggt að svo sé ef menn vilja það. Þá er engin lausn á því máli önnur en sú að ég hafi hv. þm. Ragnheiði Elínu með mér á öllum mínum fundum þannig að hún geti verið vitni að öllum mínum samskiptum (Forseti hringir.) við kollega mína og aðra aðila ef það megi aðeins sefa hennar tortryggni. (Gripið fram í: Það veitti nú ekki af.)

(Forseti (ÁRJ): Ég bið þingmenn um að virða tímamörk.)